Af hverju forritunarkennsla?

IMG_5656

Forritun er ákveðið læsi á stafrænni öld. Hún eykur skilning nemenda á þeirri tækni sem þeir eru að nota daglega og færir þá þannig frá því að vera neytendur eða “notaðir” í að vera notendur, í merkingunni að það eru þeir stjórna tækninni en tæknin stjórnar þeim ekki.
Markmiðið með forritunarkennslu er ekki að allir verði forritarar heldur að allir nemendur fái tækifæri til að kynnast forritun, rétt eins og allir kynnast heimilisfræði, smíðum, tónmennt og öðrum greinum í grunnskóla. Það verða ekki allir kokkar þó þeir læri heimilisfræði í grunnskóla, sama á við um forritunarkennsluna.
Forritunarmál er eins og tungumál með mörgum mállýskum, um leið og maður hefur náð skilningi á einu forritunarmáli þá er maður fljótur að ná tökum á öðrum forritunarmálum. Grunnskólanemendur eru almennt fljótir að tileinka sér ný tungumál, það á líka við um forritunarmál.
Forritun er ekki ennþá sér þáttur í Aðalnámsskrá eins og sumstaðar er orðið í nágrannalöndum okkar. En það eru mörg markmið í Aðalnámsskrá sem er hægt að ná með forritunarkennslu með öðrum og kannski fjölbreyttari hætti en aðrar námsgreinar bjóða upp á.  Markmið sem tengjast forritun er hægt að finna undir stærðfræði, upplýsinga- og tæknimennt og list- og verkgreinum í aðalnámsskrá grunnskóla. 
Í forritun er unnið með hæfni nemenda til að nota þekkingu og leikni, draga ályktanir, áræðni til að leita nýrra lausna og beita gagnrýninni hugsun og röksemdarfærslu. Það er unnið með hæfni nemenda til að vinna sjálfstætt, í samstarfi við aðra og undir leiðsögn. Með forritun er sem sagt aðallega verið að þjálfa umfram allt: lykilhæfni nemenda samkvæmt aðalnámsskrá.
Kennsluefni til forritunarkennslu er nokkuð aðgengilegt þó ekki sé mikið til á íslensku. Þá er um að gera að samþætta hana við enskukennslu. Ýmislegt er að finna á síðum eins code.org Khan Academy og Scratch,  öpp eins og Swift Playgrounds, Box Island, Lightbot, Tynker, Hopscotch og Kodable. Einnig eru ýmis gagnvirk forritanleg amboð fáanleg eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, þau eru þó ekki nauðsynleg en sannarlega skemmtileg. Hægt að finna ýmsar forritunarhugmyndir undir myllumerkinu #forritun á Twitter.
Ég skora á þig kennari góður að tileinkna a.m.k. 40 mínútum á næsta ári í forritunarkennslu í þinni skólastofu 🙌🏻💥
 

Leave a Reply