Tækni í skólastarfi

Þegar haustið færist yfir kalla skólar og fleiri eftir fyrirlestrum, vinnustofum og skrifum sem tengjast m.a. tækni í skólastarfi og breyttum kennsluháttum samfara henni. Ég fór á nokkra staði á landinu og kom að endurmenntun kennara í upphafi skólaárs. Ég hélt fyrirlestra m.a. á ráðstefnu á vegum samtaka áhugafólks um skólaþróun og talaði á vefráðstefnu um tækifæri menntunar í dreifðum byggðum í fjórðu iðnbyltingunni sem haldin var af Nýsköpunarmiðstöð, landshlutasamtökum sveitarfélaga og Byggðarstofnun. Eitthvað lenti svo á blaði, t.d.  grein í Skímu, tímarit móðurmálskennara, þar sem farið var yfir möguleika á notkun tækni í íslenskukennslu.

Screenshot 2019-10-05 at 23.35.14

Það eru forréttindi að fá tækifæri til að láta rödd sína heyrast þegar maður brennur fyrir málefnið. Fyrir það er ég þakklát. Ég læt hér grein sem ég skrifaði fyrir Heimili og skóla og SAFT fylgja:

Hefðbundið skólastarf hefur frá árdögum innihaldið mikinn bóklestur, vinnubókarvinnu og lærdóm staðreynda. En tímarnir hafa breyst og nemendur okkar tileinka sér lærdóm með öðrum hætti í dag en fyrri kynslóðir. Það gera þeir með auknu aðgengi að upplýsingum með tilkomu tækni. Nám er að breytast frá því að muna allt sem lesið er, yfir í að vera flinkur að afla sér þeirrar þekkingar sem viðkomandi þarf hverju sinni. 

En skólarnir hafa breyst heldur hægar en flest annað í kringum okkur. Þar til núna. Tæknin opnar á endalausa möguleika í náminu. Fái nemandi hugmynd veitir eitt snjalltæki honum aðgang að myndavél, alls konar rafbókum tengdum hans áhugasviði, striga til að teikna eða mála á, ásamt eigin bókaútgáfu. Hann hefur aðgang að hljómsveit, upptökustúdíói, kvikmyndaveri og alls kyns heilaleikfimi. Hann getur ferðast um heiminn og út í geiminn. Hann getur hannað hvað eina sem honum dettur í hug og gert frumgerðir af hönnuninni. Hann hefur aðgang að endalausri þekkingu sé forvitni hans vakin. Og hann getur á aðgengilegan hátt skapað á fjölbreytta vegu. 

Það hefur sem betur fer alltaf verið sköpun í námi okkar hérlendis. Við höfum t.d. haldið í verkgreinar eins og smíðar, textílmennt, myndlist og matreiðslu, sem víða var hætt að kenna erlendis en er núna að koma aftur ásamt fleiri verkgreinum undir heitinu “makerspace” eða hönnunarsmiðjur. En með tækninni má taka sköpunina enn lengra. 

Það er frábært að nýta sér sýndarveruleika í kennslu. Sýndarveruleikinn setur námsefnið í allt annað samhengi. Það að vera staddur í flóttamannabúðum með jafnaldra sínum frá Sýrlandi, sem segir frá og sýnir sitt daglega líf í gegnum sýndarveruleika, er mun áhrifaríkara en að lesa tölfræði um flóttamenn af blaðsíðu í bók. Að geta ferðast um blóðrás líkamans eða séð inn í lungu reykingarmanns með sýndarveruleika er virkilega áhugavert. 

Nám einstaklinga með námserfiðleika hefur breyst gríðarlega með tilkomu tækni. Bara það að geta nýtt sér talgervil til að hlusta á námsefni og að geta skilað verkefnum munnlega með raddupptökum í stað þess að skrifa á blað, jafnar gríðarlega það bil sem óneitanlega myndast milli einstaklinga með námserfiðleika og þeirra sem ekki kljást við slíkt. Þekking og ímyndunarafl nemenda með námserfiðleika er sannarlega ekki minna en annarra, en þau geta komið hvoru tveggja svo margfalt betur til skila með tækninni. Sjálfstraust nemenda með námserfiðleika eykst hratt og örugglega um leið og vanmáttur sem einhæf notkun á blýanti og blaði getur valdið, minnkar. Þau standa frekar jafnfætis félögunum sínum og jafnvel framar á sumum sviðum, sem áður fengu ekki að njóta sín. 

Þegar þessar leiðir og margar fleiri eru nýttar með tækni erum við farin að tala um raunverulega einstaklingsmiðað nám hjá öllum nemendum. Tæknin er alls ekki í stöðugri notkun heldur eitt af mörgun verkfærum í náminu. Kennarar þurfa ekki að vera sérfræðingar í tækni, hins vegar ættu þeir að veita nemendum frelsi til að nýta hana. Því með tækninni verður námið eftirminnilegra.

Leave a Reply