Yfirlit yfir árið 2019 

Árið byrjaði á því að ég laumaði mér reglulega á UTís mini helgarnámskeið hjá Ingva Hrannari. Það var frábær endurmenntun, að eyða heilli helgi með frábæru fólki með vinnulotum sem nýttust mér strax í kennslu. 

Epli og Apple héldu vinnudag í apríl fyrir skólafólk á Bryggjunni þar sem við Ingvi Hrannar, Björgvin Ívar, Dögg Lára og Björn Gunnlaugs vorum með fyrirlestra. Virkilega skemmtilegur dagur og í fyrsta sinn sem ég held fyrirlestur í brugghúsi! 

IMG_4865

Í sumar hélt ég fyrirlestur við háskólann í Kalamata á Grikklandi um forritunarkennslu á vegum Erasmus og öðlaðist þar Evrópska viðurkenningu kennara frá Erasmus. Virkilega skemmtileg ferð, ekki síst vegna ferðafélaganna, barnanna minna þriggja. 

9C0F9A17-F7C6-4DFB-8668-9EA6297CE4B9.JPG

Ég dundaði mér við að taka Google Level 2 prófið í sumar sem var talsvert krefjandi en bæði gaman og gagnlegt að klára það. Ég gerðist einning Seesaw Ambassador og var að auki í eTwinning Ambassador Evrópunámi í haust með vikulegum verkefnaskilum. Það er hollt að vera aftur nemandi og velta fyrir sér tilgangi þeirra verkefna sem lögð eru fyrir, já og fjölda verkefna. Magn er ekki alltaf í samræmi við gæði.

seesaw.jpg

Talsvert var um fyrirlestra og ráðgjöf til skóla, ásamt blaðagreinum í nokkur blöð og tímarit. Það er alltaf jafn gaman að fá tækifæri til að koma í aðra skóla og kynnast skólastarfi og starfsfólki. Maður tekur ævinlega eitthvað með sér og vonandi skilur maður eitthvað eftir líka. 

IMG_4911.JPG

Í haust tók ég við 50% stöðu kennsluráðgjafa við Árskóla til eins árs. Þar var fyrsta verkefni að fjölga iPödum á yngsta stigi. Fyrstu tveir árgangarnir eiga einn iPad á hverja 2 nemendur en nú erum við með iPad 1:1 frá þriðja bekk og upp í 10.bekk. Þessi fjölgun tækja kom til vegna þrýstings og áhuga frá kennurum sem líta á iPad sem eitt af nauðsynlegum verkfærum í kennslustofunni og er það frábært. Vonandi tekst okkur að fara með yngstu bekkina líka í 1:1 sem fyrst. 

Að setja upp öll þessi tæki handvirkt er nett bilun. Því fór ég í það verkefni að sækja um Jamf og setja öll tæki á miðstýrt kerfi. Umsóknarferlið tekur talsverðan tíma og byrjaði ég klárlega á öfugum enda. Hefði átt að sækja fyrst um Jamf og setja svo tækin upp en svo lengi lærir sem lifir.
Það hefur farið óhemjutími í tæki, ég hlakka til að klára þessa uppsetningu og sinna meiri kennslu sem kennsluráðgjafi! 

IMG_4912

Sem formaður Kennarasambands Norðurlands vestra sá ég ásamt stjórn um kennaraþing fyrir okkar svæði sem nær frá Hólmavík að Ólafsfirði. Þar mættu um 120 kennarar og stjórnendur. Við fengum m.a. Eyþór Eðvarðsson til okkar með mjög góðan fyrirlestur um kulnun í starfi og hvernig er hægt að þekkja merki kulnunar og grípa inn í áður en eiginleg kulnun á sér stað. Mæli eindregið með Eyþóri og hans þekkingu, það skemmir ekki að hann er hálfgerður uppistandari í ofanálag svo það leiðist engum erindið. 

Ég hef mikinn áhuga fyrir lýðræði í skólastarfi og fannst því upplagt að samnýta krafta kennarans og sveitastjórnarfulltrúans þegar skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins Skagafjarðar, hvar ég sit, vann að nýju aðalskipulagi. Nefndin, ásamt ráðgjafa frá VSÓ ráðgjöf, lagði verkefni fyrir tvo árganga í öllum skólum Skagafjarðar til að fá hugmyndir unga fólksins inn í nýtt aðalskipulag. Það var frábærlega gaman að koma að þessu og virkilega þarft að búa til vettvang fyrir raddir unga fólksins í auknum mæli í samráði við nefndir sveitarfélaga. Ég segi betur frá þessu verkefni hér.

Það var svo skemmtileg rúsína í pylsuenda að halda fyrirlestur um þetta verkefni á Evrópuráðstefnu kennara í Frakklandi í haust í góðum félagsskap. 

DD779A55-CEBF-41F8-9E3C-D9D03C647289 3.JPG

Nemendur mínir í forritunarvali skipulögðu opinn forritunardag í Árskóla í tilefni að alþjóðlegri forritunarviku. Þar mættu foreldrar, afar og ömmur til að forrita með krökkunum sínum. Undirbúningurinn var ekki flókinn og útkoman var stórskemmtileg. Þetta verður sannarlega endurtekið. Skólinn tók einning þátt í Hour of Code vikunni í desember með þeim verkfærum sem ég var áður búin að nefna hér

 

IMG_CFFD134CB8AD-1

Ég fékk að koma að stofnun menntabúða í Skagafirði sem voru vel heppnaðar og löngu tímabært að opna á þann góða vettvang. Hér er þó sá háttur á að öll skólastig koma að menntabúðum, leikskólar, grunnskólar, tónlistarskóli og framhaldsskóli. Það verður spennandi að fylgjast með þeirri þróun. 

IMG_4863.jpg

UTís2019 var auðvitað tilhlökkunarefni ársins eins og ævinlega. Það toppar ekkert þessa endurmenntun á Íslandi. Krafturinn og gleðin í fólkinu sem mætir er eitthvað annað og fyrirlesararnir voru frábærir að vanda. Ég hef farið á UTís frá upphafi og finnst þróunin mjög góð. Hún hefur færst frá því að vera um tækni og öpp yfir í að vera fyrst og fremst um kennslufræði og breytta kennsluhætti með tæknina sem verkfæri. Næst verður UTís með aðeins öðru sniði, virkilega spennandi að sjá hvernig það heppnast. 

Hápunktur ársins er vafalaust að fara með Ingva Hrannari og Bjögga til Hollands þar sem við Bjöggi tókum við Apple Distinguished Educator viðurkenningu frá Apple en hana hafði Ingvi Hrannar hlotið tveimur árum áður. Þetta voru meiriháttar dagar, þvílíkt fólk, þvílík þekking, þvílík gleði. Ég vona sannarlega að fleiri Íslendingar hljóti þessa viðurkenningu þegar hún er veitt næst árið 2021 og bætist þá við í þennan frábæra lærdómshóp. 

IMG_4864

Þegar ég lít yfir 2019 þá gerðist sennilega fleira en mér fannst við upphaf þessarar samantektar. Þetta er það frábæra við kennarastarfið, fjölbreytileikinn, tengslanetið, tækifærin en umfram allt kennslustundirnar með mínum frábæra bekk sem útskrifast á þessu ári. Þau eru sífellt að kenna mér. 
Framundan eru ýmis verkefni og einhver markmið sem skal ná, en aðalmarkmiðið er þó alltaf að vera partur af því lærdómssamfélagi sem er í Árskóla, Skagafirði og svo á landinu öllu. 

Fyrir því er ég spennt og fyrir það er ég þakklát. Gleðilegt nýtt lærdómsár! 

Comments

Leave a Reply