Hour of Code – Klukkustund kóðunar

Viðburðurinn Hour of Code er haldinn árlega í byrjun desember um allan heim í tengslum við Computer Science Education Week. Klukkustund kóðunar eins og við getum kallað viðburðinn á okkar ástkæra, er frábært tækifæri fyrir bæði nemendur og kennara til að kynna sér kóðun án mikillar fyrirhafnar, því efnistök fyrir þennan viðburð eru þó nokkur. Ég ætla að greiða leiðina að þeim helstu hér í þeirri von að sem flestir íslenskir skólar taki þátt í Hour of Code þetta árið.

Hægt er að skrá skólann sinn á viðburðinn hér en það væri vissulega gaman að halda utan um þátttökuna á Íslandi með þeim hætti – nokkrir skólar hérlendis eru þegar búnir að skrá sig – vel gert!

hoc2019_social.png

Á Code.org er að finna fjölmörg verkefni sem henta öllum aldri. Það er reyndar eitthvað um texta sem þarf að lesa, en ég hef leyst það í 1.b og 2.b Árskóla með því að fá eldri nemendur úr forritunarvali til að aðstoða þá bekki. Það hefur lukkast mjög vel og allir haft gaman af. Eitt verkefni var sérstaklega ætlað Hour of code í fyrra, danspartý, en það kemur áreiðanlega nýtt og spennandi verkefni í ár.

Swift Playgrounds er frítt forritunarapp frá Apple sem ég get ekki mælt nægilega með. Í appið eru sóttar bækur sem gerir það auðvelt að nýta appið fyrir nemendur í bekkjum þar sem ekki er iPad á hvern nemenda. Bækurnar eru misjafnlega erfiðar og talsvert er af aukaverkefnum fyrir þá nemendur sem fara hraðar yfir. Ég myndi mæla með verkefnunum fyrir miðstig og unglingastig. Í appinu eru árleg verkefni fyrir klukkustund kóðunar. Code Macine er tilltölulega auðvelt og hafa allir aldurshópar gaman af því verkefni, ég mæli sérstaklega með því fyrir fyrstu þátttöku.

Khan Academy býður upp á ógrynni af forritunarverkefnum af ýmsum erfiðleikastigum. Þar er hægt að stofna sinn eigin bekk og fylgjast með nemendum sínum. En þar er líka hægt að prufa eitt gott klukkustundarverkefni sem ætlað er 8 ára og eldri.

Google hefur líka skapað vettvang fyrir forritunarkennslu í Scratch en ég er einmitt mjög hrifin af Scratch umhverfinu. Þar kemur inn verkefni fyrir klukkustund kóðunar en að auki er mörg önnur verkefni eins og að búa til sitt eigið Google Logo – Google Doodle – þar sem reynir bæði á forritun og sköpun eins og ævinlega í forritunarkennslu.

Verkefni Hour of Code eiga það sameiginlegt að þau þarfnast ekki miklis undirbúnings. Vissulega er gott að vera búinn að renna í gegnum þau, en ef það gefst ekki tími til þá er um að gera að henda sér í verkefnin með nemendum og læra saman!

This slideshow requires JavaScript.

Fleiri amboð til að nýta í forritunarkennslu eru t.d. Codespark er fyrir yngstu þar sem enginn texti flækir málin heldur eru gefnar vísbendingar með putta sem bendir. Tynker fyrir miðstig sem hefur nokkur frí borð til prufu. Box Island er góður forritunarleikur, fyrstu borðin eru frí en svo þarf að kaupa framhaldið. Fyrir 8 ára og eldri er hægt að nýta sér Code Monkey og Kodable og fyrir aðeins eldri eru Lightbot og Hopschotch fríir og góðir í forritunarkennslu. Þetta eru aðeins nokkur dæmi af þeim hafsjó sem hægt er að velja úr.

Í lengri verkefnum eða markvissri forritunarkennslu myndi ég þó leggja áherslu á að byrja á einu verkefni og klára það, helst í samvinnu við bekkjarfélagana. Það er mikilvægt að þjálfa bæði samvinnu og þrautseigju með forritunarkennslunni og leyfa nemendum ekki að gefast upp og byrja á einhverju nýju í sífellu, heldur leita lausna í samvinnu við félagana. Þannig dýpkar skilningurinn og þá verður forritun skemmtileg.

Vona að þessi samantekt verði hvatning fyrir ykkur til að taka þátt og deila þátttökunni á Twitter undir myllumerkinu #klukkustundkodunar og #hourofcode – Gangi ykkur vel!!

Comments

  1. Pingback: Yfirlit yfir árið 2019  – alfhildur.com

Leave a Reply