Lýðræði í skólastarfi

Lýðræði er gríðarlega mikilvægt á vettvangi skólanna. Lýðræði í skólastarfi ætti að miða að því að nemendur verði færir um að taka þátt í að móta samfélagið og öðlast þannig bæði sýn til framtíðar og hugsjón til að beita sér fyrir. Skólar þurfa að taka mið af því að nemenda þeirra bíður það hlutverk að taka þátt í lýðræðissamfélagi og því er mikilvægt að nemendur læri um þess háttar lýðræði. Og væntanlega er besta leiðin fyrir nemendur til að læra um lýðræði sú að vera þátttakendur í lýðræðislegu umhverfi.

En nemendur eru skyldaðir til þess að ganga í skóla og þeir hafa sjaldnast nokkuð um skólastarfið sjálft að segja. Starf skólanna byggir á námsskrá sem nemendur taka ekki þátt í að semja. Lýðræði á sér yfirleitt mjög takmarkaða samsvörun í daglegum starfsháttum skóla. Úr því verður að bæta. Að mínu mati þarf að fjölga leiðum í skólastarfi til að auka lýðræði og undirbúa nemendur fyrir að vera þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi. Til þess eru margar leiðir. Mig langar að segja hér frá einni þeirra hér.

Þegar skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins Skagafjarðar, hvar ég sit, hóf vinnu við endurgerð aðalskipulags til næstu 12 – 15 ára var ákveðið að hafa ekki einungis opna íbúafundi og fundi með hagsmunaaðilum eins og vant er, heldur leita eftir hugmyndum frá unga fólkinu. Ungt fólk hefur sjaldnast sótt þessa opnu fundi og því ákvað nefndin að færa fundinn til þeirra! Nemendur í 7. bekk og 9. bekk allra skólanna í Skagafirði tóku þátt í verkefni sem skipulags- og byggingarnefnd undirbjó ásamt VSÓ ráðgjöf.

 

Unnið var með þrjú þemu sem öll tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, um samfélag, atvinnu og menntun og loks umhverfi og sjálfbærni. Með umræðupunktum sem tengdust þessum þáttum ræddu nemendur  saman í hópum um m.a. sérkenni sveitarfélagsins, hvernig þau vilja hafa framtíðina, hvaða breytingar þau vilja sjá og hvað þarf til að samfélagið dafni. Allar hugmyndir voru skjalfestar á blöð og kort, kortin voru af sveitarfélaginu annars vegar og þéttbýliskjörnum hins vegar. Um leið gafst kennurum þessara nemenda tækifæri til að meta nokkur lykilhæfnimarkmið Aðalnámskrár er varða lýðræði, skapandi og gagnrýna hugsun og það að vera virkur og ábyrgur borgari í lýðræðislegu samfélagi.

 

heimsmarkmið.jpg

Það er gríðarlega mikilvægt að raddir unga fólksins heyrist á vettvangi sem þessum. Það er jú unga fólkið sem við viljum að vaxi og dafni í sveitarfélaginu okkar á komandi árum og komi aftur heim í hérað eftir að leita annað til náms eða starfa. Þau hafa oft aðrar hugmyndir og ferska sýn sem er mikilvægt að fá í vinnu sem þessa. Nemendur unnu vel að verkefninu og vöknuðu margar nýjar hugmyndir sem skipulags- og byggingarnefnd er spennt að vinna með áfram.

Öllum upplýsingum frá nemendum hefur verið safnað saman á eina vefsjá sem finna má hér

This slideshow requires JavaScript.

Það var skemmtileg tímasetning að fá það verkefni að halda fyrirlestur á stærstu eTwinning ráðstefnu kennara í Cannes í Frakklandi um liðna helgi. Þema ráðstefnunnar að þessu sinni var einmitt lýðræði. Í erindi mínu sagði ég m.a. frá þessu verkefni sem unnið var af skipulags- og byggingarnefnd, en verkefnið fékk mjög jákvæð viðbrögð áheyrenda. Allir voru sammála um nauðsyn þess að þeir sem landið erfa hafi vettvang í gegnum skólastarfið til að viðra sínar hugmyndir og á þá sé hlustað. Um leið voru margir hissa á hversu auðvelt það er fyrir okkur í fámenninu að fylgja eftir hugmynd sem þessari til framkvæmdar. Við ættum einmitt að nýta smæð okkar til að gera miklu meira af slíku.

 

This slideshow requires JavaScript.

Ég mæli sannarlega með eTwinning vettvanginum fyrir þá sem vilja stækka tengslanetið, vinna að áhugaverðum og eftirminnilegum verkefnum fyrir allan aldur og um leið fá tækifæri til að hitta aðra kennara í Evrópu með frábærum ferðafélögum. Að taka þátt í eTwinning er alls ekki tímafrekt en skilar gagnlegum og skemmtilegum minningum í kennslustofuna fyrir bæði nemendur og kennara.

Að lokum vil ég í þessum lýðræðispistli benda á það öfluga starf sem unnið er hjá ungmennaráði Suðurlands eins og sjá má hér Ungt fólk á Suðurlandi vill komast til valda.
Þar hefur verið gefin út handbók öðrum til leiðbeininga um stofnun slíks ráðs.
Ungmennaráð Suðurlands er öðrum sveitarfélögum algjörlega til fyrirmyndar og vonandi er framganga þeirra sem þar starfa öðrum ungmennum á landinu hvatning til að láta sínar raddir heyrast, þetta eru raddir sem eiga erindi!

Comments

  1. Pingback: Árlega eTwinning ráðstefnan í Cannes – eTwinning á Íslandi

  2. Pingback: Yfirlit yfir árið 2019  – alfhildur.com

Leave a Reply