Jafnrétti til náms

Ég er svo heppin að fá að fara í skóla víða um land og endurmennta kennara. Í einni slíkri ferð var ég með fyrirlestur um breytta kennsluhætti með tilkomu tækni. Eftir fyrirlesturinn kom til mín kennari sem þakkaði mér fyrir og sagði að það væri eiginlega ömurlegt að fá mig. Ég varð svolítið hissa en skildi viðkomandi fullkomlega þegar hann sagði ástæðuna: “þú skilur eftir mikla þekkingu en við eigum engin verkfæri hér til að nýta hana”. Það voru nánast engin tæki í skólanum og slakt net.
Kennararnir voru hins vegar þyrstir í breytta kennsluhætti og vildu einstaklingsmiða nám nemenda enn meir með tækni en gátu það ekki.
Ég hef verið mjög hugsi frá því þetta gerðist yfir þeim misjafna aðbúnaði sem nemendur hafa í skólum landsins.

Aðbúnaður nemenda hvar sem þeir eru á landinu er samur að sumu leiti, eins og allir þurfa að taka samræmd próf sem eru dýr í framkvæmd. En svo er miklinn munur á öðrum aðbúnaði eins aðgengi að þverfaglegum teymum eða aðgengi að tækni og interneti. Sveitarfélögin styðja misvel við skólana.  Það eru pólitískar ákvarðanir hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig hvernig skólamálum er háttað og sveitarfélögin eru tæplega 70. Ákvarðanir og áherslur sveitarfélaganna eru misjafnar. Þær fara eftir áherslum þeirra sem sitja nokkur ár í senn. Er það jöfnuður?
Mörg sveitarfélög hafa haldið áfram niðurskurði í skólamálum frá 2008 eða a.m.k. ekki sett mikla innspýtingu í málaflokkinn, en samt eru gerðar kröfur um betra nám.
Meiri kröfur og minna fjármagn vinnur vanalega ekki vel saman.

En af hverju er jöfnuður nauðsynlegur?
Allir nemendur eiga að hafa aðgang af fagfólki, menntuðum kennurum, náms- og starfsráðgjöfum, sálfræðingum og félagsþjónustu óháð sínum félagslega bakgrunni eða búsetu. Og ef við viljum tala um raunverulegan jöfnuð þá ættu leikskólar að vera gjaldfrjálsir en Ísland er eitt af fáum Evrópulöndum sem reiknar með kostnaðarhlutdeild foreldra alla leikskólagönguna. Skólamáltíðir ættu að vera fríar en sum sveitarfélög eru einmitt að stíga það skref sem er til fyrirmyndar. Og allir ættu að hafa tækifæri til að iðka íþróttir, listnám, verknám og tónlistarnám.
Til að gera þetta að veruleika verður ríkið að stíga inn að mínu viti. Ríkið verður að tryggja þennan jöfnuð með stuðningi, a.m.k. við ákveðna þætti.

Það eiga allir að byrja á sama reit óháð sínu baklandi. Fá sama startið. Þannig verða tækifæri nemenda raunverulega jöfn.

Samband íslenskra sveitarfélaga bauð mér á morgunfund til að halda áfram umræðunni eftir skólaþing sem sambandið hélt á síðasta ári. Ég ræddi um jöfnuð til náms ásamt öðrum hugleiðingum mínum sem kennari á gólfinu. Erindið má finna hér og byrjar 1:22:00.

Jafnrétti til náms, Samband íslenskra sveitarfélaga. 

Leave a Reply