Bókmenntir og tækni

Ég skal vera fyrst til að viðurkenna að mér finnst alltof mikil áhersla á málfræði í íslenskukennslu á unglingastigi. Ég er á því að talsvert af málfræðikröfum grunnskóla ætti að færa upp í framhaldsskóla, jafnvel í íslenskukennslu í háskólum. Áhersla í grunnskólum ætti að vera á læsi, tjáningu og skilning en ekki orðflokkagreiningu og setningafræði. Kannski er þetta bara ofurviðkvæmni í lesblinda kennaranum mér. Eða kannski er þetta vegna þess að mér finnst bara svo óhemjugaman að kenna íslensku í gegnum góðar bókmenntir með fjölbreyttum verkefnum með læsi, tjáningu, skilning og samvinnu að leiðarljósi.

Fyrir rúmu ári síðan ákvað Ingvi Hrannar – kennsluráðgjafi í skólum Skagafjarðar – að gerast viðbótarkennari í 8. bekkjar teyminu sem ég var í. Hann stakk upp á að við myndum vinna með bókina Undur (Wonder) eftir R.J Palacio. Bók sem sameinar íslenskukennslu og lífsleikni á frábæran hátt. Í sameiningu settum við saman ítarlega kennsluáætlun fyrir bókina, lifandi skjal sem breyttist í nánast hverri kennslustund.

Screenshot 2019-02-10 at 19.49.48.png

Við byrjuðum á að skoða þau markmið Aðalnámskrár sem við töldum að við gætum náð í gengum þessa bók – eins og Ingvi Hrannar hefur fjallað um. Út frá þeim skipulögðum við verkefni sem reyna á mismunandi færni og hæfni. Nemendur t.d. unnu sínar “Undramyndir” í Paper53 og völdu eða bjuggu til sín eigin kjörorð, en kjörorð eru áberandi í bókinni.

Nemendur svöruðu spurningum í Flipgrid heima þar sem reyndi á þá að setja sig í spor annarra og líta í eigin barm. Það var mikil lífsleikni og voru svörin virkilega einlæg þar sem enginn annar en kennarinn heyrði þeirra vangaveltur. Mentimeter nýttist til að setja karaktereinkenni hverrar persónu í orðaský í sameiningu. Bókin var lesin með þeim frá orði til orðs, bæði vegna þess að þannig skapast frábærar umræður sem ekki er hægt að sjá fyrir og líka vegna þess að svona lestur er sannkallaður gæðatími.

 

This slideshow requires JavaScript.

Ári seinna hef ég smíðað sambærilegar kennsluáætlanir fyrir Laxdælu, Strákinn í röndóttu náttfötunum og Vertu ósýnilegur. Aðrir kennarar Árskóla eru í sömu vinnu með aðrar bækur en allar fara þessar kennsluáætlanir á sameiginlegt drif skólans. Hugmyndin er að skjölin séu lifandi, að sá sem nýtir þau næst komi til með að endurbæta verkefnin. Þetta er virkilega þörf vinna sem eflaust hefur verið unnin oft áður en ekki sett á einn aðgengilegan stað fyrir aðra að nálgast.

Hver bók hefur mismunandi markmið í mínum huga. Í Laxdælu kaus ég að vinna mikið með lesskilning meðan að ég tengi Vertu Ósýnilegur samfélagsfræði-markmiðum ekki síður en íslenskumarkmiðum. Í Stráknum í röndóttu náttfötunum nýtti ég Nearpod talsvert til að vinna með málfræði sem gafst vel. Útfærslur á verkefnum eru margsskonar, allt frá orðarugli Úsvars í Laxdælu yfir í að forrita flóttaleið söguhetjunnar í Vertu Ósýnilegur með Spherokúlum.

Screenshot 2019-02-10 at 20.41.43
Dæmi um verkefni í Vertu ósýnilegur

IMG_1094.JPG

Ég eyddi helginni á UtísMini ~ Bókmenntir og tækni ~ þar sem Ingvi Hrannar fór yfir hvaða verkfæri geta nýst í þessari vinnu. Möguleikarnir eru nánast endalausir og bættist vel við í verkfærakistuna mína. Það er alltaf virkilega gott og lærdómsríkt að eiga samræður við aðra kennara og skiptast á hugmyndum. Afurð þessarar bókmenntahelgar er nú í smíðum hjá Ingva Hrannari sem hefur öðrum fremur skapað vettvang fyrir okkur kennara að deila vinnu okkar og hvatt til þess með góðu fordæmi. Og sannarlega kem ég til með deila þangað mínum kennsluáætlunum fyrir aðra að nýta og betrumbæta. Og ég hlakka til að sjá hvernig aðrir taka mínar hugmyndir ennþá lengra.

Leave a Reply