Ég skal vera fyrst til að viðurkenna að mér finnst alltof mikil áhersla á málfræði í íslenskukennslu á unglingastigi. Ég er á því að talsvert af málfræðikröfum grunnskóla ætti að færa upp í framhaldsskóla, jafnvel í íslenskukennslu í háskólum. Áhersla í grunnskólum ætti að vera á læsi, tjáningu og skilning en ekki orðflokkagreiningu og setningafræði. Kannski er þetta bara ofurviðkvæmni í lesblinda kennaranum mér. Eða kannski er þetta vegna þess að mér finnst bara svo óhemjugaman að kenna íslensku í gegnum góðar bókmenntir með fjölbreyttum verkefnum með læsi, tjáningu, skilning og samvinnu að leiðarljósi.
Fyrir rúmu ári síðan ákvað Ingvi Hrannar – kennsluráðgjafi í skólum Skagafjarðar – að gerast viðbótarkennari í 8. bekkjar teyminu sem ég var í. Hann stakk upp á að við myndum vinna með bókina Undur (Wonder) eftir R.J Palacio. Bók sem sameinar íslenskukennslu og lífsleikni á frábæran hátt. Í sameiningu settum við saman ítarlega kennsluáætlun fyrir bókina, lifandi skjal sem breyttist í nánast hverri kennslustund.
Við byrjuðum á að skoða þau markmið Aðalnámskrár sem við töldum að við gætum náð í gengum þessa bók – eins og Ingvi Hrannar hefur fjallað um. Út frá þeim skipulögðum við verkefni sem reyna á mismunandi færni og hæfni. Nemendur t.d. unnu sínar “Undramyndir” í Paper53 og völdu eða bjuggu til sín eigin kjörorð, en kjörorð eru áberandi í bókinni.
Nemendur svöruðu spurningum í Flipgrid heima þar sem reyndi á þá að setja sig í spor annarra og líta í eigin barm. Það var mikil lífsleikni og voru svörin virkilega einlæg þar sem enginn annar en kennarinn heyrði þeirra vangaveltur. Mentimeter nýttist til að setja karaktereinkenni hverrar persónu í orðaský í sameiningu. Bókin var lesin með þeim frá orði til orðs, bæði vegna þess að þannig skapast frábærar umræður sem ekki er hægt að sjá fyrir og líka vegna þess að svona lestur er sannkallaður gæðatími.