eTwinning

Endurmenntun er gríðarlega mikilvægur þáttur í starfi kennara. Kröfur til menntunar eru síbreytilegar og því er nauðsynlegt að fylgjast vel með hvað er að gerast í kringum okkur, velja það sem við teljum virka best og yfirfæra það í okkar kennsluumhverfi.

eTwinning er fjölbreyttur vettvangur endurmenntunar skólafólks sem hægt er að nýta sér án þess að ganga á eigin sjóði. Ég mæli eindregið með þátttöku í eTwinning samfélaginu.

 

etwinning

eTwinning er rafrænt skólasamfélag sem gerir manni kleift að komast í samband við kennara og skólafólk um alla Evrópu. Lagt er upp með einföld samvinnuverkefni sem hvorki krefjast mikils undirbúnings eða langrar úrvinnslu. Þau eTwinning verkefni sem ég hef tekið þátt í eiga það einmitt sameiginlegt að vera fljótleg en um leið mjög eftirminnileg fyrir nemendur.

 

Eitt slíkt verkefni var “mistery skype” við fjögur önnur lönd í Evrópu. En þar sem tæknin var að skornum skammti í sumum samstarfslandanna, þá notuðum við ekki skype, heldur Google skjal sem við kennararnir deildum okkar á milli. Reglurnar voru einfaldar: engin tækni notuð í skólastofunni fyrir utan kennaratölvuna með Google skjalinu. Nemendur sitt hvoru megin í Evrópu drógu upp gömlu kortabækurnar sínar og spurðu já eða nei spurninga til skiptis, til að reyna að vera fyrri til að finna hvaða land við áttum samskipti við.
Þetta var óhemjugaman. Krakkarnir spurðu spurninga eins og hvort landið lægi að sjó, þau spurðu út í trúarbrögð, fánaliti, fótboltamenn og fleira til að þrengja leitina. Það var gott samstarf  milli nemenda, mikil spenna, hugmyndaauðgi og gleði í þessu verkefni sem krafðist lítils undirbúning annars en þess að finna tíma sem hentaði báðum löndum.

Screenshot 2019-02-02 at 15.56.08.png

Dæmi um leikskólaverkefni sem Fjóla Þorvaldsdóttir leikskólakennari tók þátt í með öðrum eTwinning þátttakendum, voru fiðrildi sem send voru á milli landa. Leikskólanemendur í nokkrum löndum föndruðu fiðrildi og skrifuðu undir vænginn upplýsingar um sig og landið landið sitt. Fiðrildin voru svo öll send á sama tíma í bréfpósti á milli þátttökulandanna. Leikskólinn hjá Fjólu fékk fjölmörg fiðrildi sem þau skreyttu vegg hjá sér með og um leið var hægt að nota tækifærið og fræðast um sérhvert land sem sendi til þeirra þennan glaðning.

Í mars 2018 fór ég ásamt tveimur öðrum íslenskum kennurum á eTwinning ráðstefnu í Kaupmannahöfn.  Þetta var frábær ferð. Vel að öllu staðið og vel um mann hugsað, flott dagskrá þar sem bæði var boðið upp á góða fyrirlesara en líka krafist gagnlegrar vinnu af okkur í hópum. Unnið var m.a. með CRAFT líkanið ~ Creating Really Advanced Future Thinkers ~ sem er virkilega áhugavert.

Þessi ráðstefna var haldin á sama tíma og Danish Learning festival og var sérlega skemmtilegt að fá um leið tækifæri til að skoða sig um þar – hér eru nokkrar myndir þaðan

This slideshow requires JavaScript.

eTwinning býður upp á fjöldann allan af rafrænum endurmenntunarnámskeiðum án endurgjalds fyrir þá sem skráðir eru inn í samfélagið. Að auki sendir eTwinning á Íslandi fulltrúa sína reglulega á viðburði hingað og þangað um Evrópu. Það vill svo til að næsti viðburður er einmitt í Kaupmannahöfn í mars og tengist CRAFT. Umsóknareyðublað og lista yfir aðra viðburði eTwinning er að finna í fréttablaði eTwinning en það er margt spennandi framundan! Vakni spurningar þá getið þið fundið eTwinning sendiherra í ykkar landshluta til að aðstoða ykkur.

IMG_0887.jpg

Leave a Reply