Að segja nei

Eitt af því sem ég lærði eiginlega óvart á síðasta ári var hvaða áhrif það hefur að kenna nemendum að segja nei.
Í verkefnaskilum eftir lestur bókarinnar Strákurinn í röndóttu náttfötunum, sem ég segi frá hér, máttu nemendur velja sig sjálfir saman í hópa eða vinna einstaklingsverkefni eins og þau hafa oft fengið val um áður. Við slíka hópavinnu er þekkt að einhverjir koma sér í hóp með vinnusömum nemendum og leggja sjálfir lítið sem ekkert til verkefnisins. Þetta hefur lengi truflað mig sem kennara og strítt gegn réttlætiskenndinni þó svo að þessir nemendur fái ekki sömu einkunn og hinir í hópnum á námsmatinu. En ég hafði ekki fundið leið til að virkja þá betur.

Núna ákvað ég að kenna nemendum mínum að það væri í lagi að segja nei. Það skipti hins vegar máli hvernig það væri gert, að það væri ekki sagt á særandi hátt. En ef þau treystu sér ekki til að vinna með ákveðnum aðilum sem þau hefðu miður góða reynslu af því að vinna með, þá væri sjálfsagt mál að segja nei.
Það sem gerðist í kjölfarið var ansi magnað. Þegar “valdið” var komið til nemenda um hvernig hópaskiptingar yrðu í verkefnavinnu framvegis, þá lögðu allir meira á sig í vinnunni en ég hafði reynslu af áður með þennan sama hóp. Sumir fengu nefnilega nei og unnu þá ýmist sjálfstætt eða með öðrum sem jafnvel höfðu líka fengið nei. Núna voru allir ákveðnir í að sanna sig í vinnunni og geta þá verið gjaldgengir í hvaða hóp sem var næst. Aldrei hefur hópurinn í heild verið jafn virkur í verkefnavinnu.

IMG_6D390D865182-1.jpegIMG_EF2F857F6C5C-1.jpeg

Ég mæli eindregið með því að nemendur fái leiðsögn um hvernig á að segja nei og um leið hvernig á að taka því að fá nei. Ekki eingöngu til að auka vinnuframlag í kennslustundum, heldur er það einnig gott veganesti fyrir nemendur okkar að læra að segja nei við aðstæðum sem maður vill ekki vera settur í.

Leave a Reply