Endurmenntun 2018

Þegar ég leit yfir árið í heild þá sá ég að það toppaði önnur ár hvað skemmtilega og fróðlega endurmenntun varðaði.

BETT 2018 í London var gott mót. Sérstaklega var gaman að sjá um vinnustofu þar fyrir Epli ehf. ásamt Björgvini Ívari og Hjördísi Ýrr sem einnig eru APL vottuð af Apple. Í ár, rétt eins og í fyrra, var mikil áhersla á forritun og sköpun á BETT sem var afbragð.

Apple sendi mig til Kaupmannahafnar í byrjun júní þar sem ég lærði App development með Swift. Það reyndi verulega á bæði heilasellur og þolinmæði en það er hollt að vera reglulega sjálfur nemandi og fá krefjandi verkefni. Það sýndi mér í verki hversu öflugt og samkeppnishæft Swift forritunarmálið frá Apple er.

ISTE2018 í Chicago með Ingva Hrannari var algjörlega geggjuð ferð. Eins og BETT á sterum, en samt svo miklu meira. Kennarar og nemendur voru á gólfinu að sýna áhugaverð verkefni og nálganir. Það var endalaust framboð af vinnustofum og fyrirlestrum. ISTE er svo miklu meira en sölusýning. Endurfundir við fyrrum UTís fyrirlesara var rjómi ferðarinnar. Ég ætla sannarlega aftur á ISTE sem rúllar árlega á milli fylkja í USA seinnipartinn í júní.

Næst tók við forritunarnámskeið í Kalamata á Grikklandi í byrjun júlí. Það er svona með því betra sem ég hef gert, að forrita fram yfir hádegi og flatmaga á ströndinni fram á kvöld. Það var vel að þessu námskeiði staðið og mjög lærdómsríkt í alla staði. Unnið var með MicroBit, Arduino og RasberryPi.

Að vera valin ein af 10 kennurum í Evrópu af Apple til að flytja erindi í Berlín á forritunarráðstefnu sem Apple hélt þar, var góður skóli. Tveir þjálfarar komu að undirbúningi með mér, annar í Skotlandi og hinn í Frakklandi. Þeir sáu um yfirlestur og þjálfun á mér í gegnum netið. Þriðji þjálfarinn bættist við í Berlín þar sem við vorum æfð á sviði. Þetta var virkilega góð reynsla og tengslanetið stækkaði svo um munaði við að hitta fólk frá ýmsum löndum sem sömu ástríðu fyrir forritunarkennslu.

Þrátt fyrir góða endurmenntunardaga í ýmsum löndum toppar ekkert UTís2018 á sjálfum Sauðárkróki sem Ingvi Hrannar stendur einn og sjálfur fyrir. Að fá sex erlenda fyrirlesara sem hver og einn er sérfræðingur á sínu sviði er algjörlega magnað. Þekkingin sem verður eftir í hópi kraftmikilla kennara hér er ómetanleg. Og svo er þetta ekki síður svo frábærir endurfundir við gömul andlit og skemmtileg kynni við ný.

Þetta var svona brot af því besta en endurmenntunin fer samt sem áður fram daglega eins og flestir kennarar þekkja. Með því að prufa eitthvað nýtt, gera mistök, læra af nemendum, læra af samkennurum, fylgjast með Twitter, með lestri góðra bóka/blogga, með því að fylgjast með gróskunni í kennarastarfinu allt í kringum okkur og grípa það sem gefst vel.

Comments

  1. Unnur Valgeirsdóttir

    Flottar mottur! Vildi óska að svona væri útbúið á Íslandi fyrir íslenska nemendur.

  2. Engilbert

    Greinlega spennandi ár, en alveg sammála með UTis2018, er til betri endurmenntun og skipulagið upp á tíú,

  3. Álfhildur Leifsdóttir

    Já þetta var frábært ár – hélt svo sjálf þónokkuð af fyrirlestrum og vinnustofum sem er alltaf skemmtilegt. En UTís er alltaf toppurinn 🙌🏻

  4. Þuríður

    Ég er hreinlega agndofa yfir þér, þvílík verðmæti að hafa manneskju eins og þig í vinnu. Mikið væri ég til í að fá þig í heimsókn í skólann minn.

Leave a Reply