Breakout í kennslu er ekki ósvipað því sem kallast “escape room” og er vinsæl afþreying víða um heim. Breakout er frábær leið til að vinna með mikilvæga lykilhæfni eins og samvinnu, lausnarleit, gagnrýna hugsun og samskipti.
Breakout hentar öllum aldurshópum og er hægt að nota með hvaða námsefni sem er.
Ég hef lengi ætlað að vera virkari í að nýta mér Breakout til kennslu en ekki gefið mér tíma til þess, því vissulega krefst það undirbúnings að gera slungnar þrautir. Það var því frábært að fá heila helgi á UTísMini hjá Ingva Hrannari nýlega til að einbeita sér að Breakout í hópi annarra áhugasamra kennara.
Það myndast svo skemmtilega mikill kraftur á vinnustofum eins og UTísMini er, hugmyndaflæðið magnast í svona góðum hóp. Ekki nóg með að félagsskapurinn hafi verið frábær, heldur var helgin öll virkilega vel skipulögð af Ingva Hrannari og nóg af góðum veitingum.
Afrastur helgarinnar voru nokkur tilbúin Breakout verkefni, en þau Ingvi Hrannar og Nanna María Elfarsdóttir settu saman heimasíðu til að halda utan um Breakout verkefni fyrir okkur öll að nota og bæta við í. Frábært framtak!
Myndir frá Breakoutverkefninu “Fangelsið” sem við Ingvi Hrannar sömdum og lögðum fyrir allt unglingastig Árskóla.
Þessa helgi á UTísMini sömdum við Úlfar Daníelsson saman Breakout verkefni. Við lögðum upp með þá hugmynd að gera verkefni sem gæti hentað nemendum frá 5. – 10. bekk án þess að einhver sérstök þekking væri til staðar. Yngri nemendur fá þá lengri tíma til að leysa þrautirnar heldur en þau eldri. Unnið væri m.a. með landafræði, stærðfræði og rökhugsun.
Til varð verkefnið Týndir ferðamenn sem ég svo prufkeyrði á 9. bekkinn minn í síðustu viku.
Það voru 6 nemendur saman í hóp sem fengu 18 mínútur til að leysa verkefnið. Þau voru stödd í aðgerðastöð björgunarsveitarinnar að leita af týndum ferðalöngum. Vísbendingarnar sem þau fengu voru m.a. kvittun fyrir gistingu, landakort sem krotað hafði verið á og sms skilaboð sem höfðu borist til 112. En það er einmitt mikilvægt að hafa góða sögu sem tvinnar saman þrautir og vísbendingar við gerð á Breakout verkefni.
Það er alltaf jafn áhugavert að sjá hvernig samvinnan gengur í svona verkefnum, hvort einhver í hópnum taki stjórnina eða hvort allir séu álíka virkir.
Eftir að verkefninu lauk spurði ég nemendur spurninga um hvernig samvinnan gekk, hvort allir hafi verið virkir í hópnum, hvað gekk vel og hvað hefði mátt gera betur – til þess að fá þau til að ígrunda samvinnuna og framgang verkefnisins. Allir hópar voru sammála um að það skipti mestu máli að tala saman og að allir væru virkir í að leita lausna.